We got 99 problems but...

...a war aint one. 

Nú líður að kosningum heima á Íslandi og ég hef vafalaust sjaldan verið jafn spennt fyrir þeim. Ég vonast til þess að sjá breytingar sem gætu bætt litla fallega landið okkar og fært málin í farsælan farveg. 

Stjórnendur landsins eru ítrekað staðnir að spillingu, fátækir verða fátækari og heilbrigðiskerfið í molum. En, það er kominn tími til að breyta því, öll erum við sammála um það.

Eins og svo oft áður í sögunni virðist neyð annarra þjóða oft blandast inn í okkar neyð. Í umræðunni fyrir kosningar hefur heyrst margoft sagt að við getum ekki hjálpað þeim sem eiga bágt, því við eigum sjálf svo bágt. Stundum blandast ýmislegt inn í þessar fullyrðingar sem er litað rasískum hugsunarhætti og á ekki heima á 21.öldinni. 

Þessi skrif snúast þó ekki um það, því já, við eigum svo bágt, í íslensku samhengi, þá eigum við svo bágt. 

Vandamálin okkar eru 99, en stríð er samt ekki eitt þeirra. 

Borgin Latakia, Sýrlandi
Í kvöld er ég að fara að djamma á skemmtistað sem heitir Riverside. Á meðan ég fer og helli í mig kokteilum er fólk að deyja í sprengjuregni í klukkutíma og 40 mínútna flugfjarlægð frá mér. Þ.e.a.s. ef flogið væri frá Kaíró til Aleppo, þá væri flugtíminn svo langur.
Fyrir flugfreyju þá er svona stutt flug bara upp og niður. Það er lúxus. Það er stuttur vinnudagur. 
Það er eins og að fljúga frá Keflavík til Færeyja. Eða til Edinborgar í góðum meðvindi.

Sýrland virðist kannski órafjarri Íslandi þegar maður horfir á fréttirnar í sjónvarpinu. En það er nálægt mér núna. Það er styttra en til Norðurlandanna frá Íslandi. Handan við hornið. Ef við skiptum Egyptalandi og Sýrlandi út fyrir Ísland og Grænland, þá gætum við séð þangað frá vestfjörðum á blíðviðrisdögum. Þetta er það nálægt mér. 

Kannski gera þessar vangaveltur aðstæðurnar ekki raunverulegar fyrir nokkurn annan en mig. Það verður þá bara að hafa það. En stundum er gott að setja hlutina í annað samhengi en maður er vanur. 

Comments

Popular Posts