Hugleiðingar farþega í leigubíl
Önnur færslan mín hérna í Egyptalandi er innblásin af nokkrum hugleiðingum sem ég hripaði niður á blað síðustu daga. Svavar var svo sniðugur að gefa mér nokkrar bækur og penna svo ég gæti nú örugglega munað allt sem mér kæmi til hugar á flakki mínu um landið.
Ég fór í ræktina í fyrradag og ætlaði að kaupa mér vatn. Ég átti ekki nóg klink til að borga akkúrat fyrir vatnið svo konan sagði mér að borga bara fyrir það næst, „ef Guð lofar“ (sem ég gerði svo í gær). Mér fannst þetta svo áhugavert, mjög lýsandi fyrir Egyptaland, að skella ábyrgðinni bara á Guð frekar en manneskjuna sjálfa. Á vissan hátt fannst mér þetta æðislegt - ég á það til að stressa mig of mikið á hlutum sem ég get ekki stjórnað og þarna er viðhorf, hvort sem maður blandar Guði eða einhverjum öðrum í málið, sem minnir mann á að maður ræður ekki öllu í kringum sig. Stundum bara að leyfa hlutunum að gerast.
En, ég skrifaði um þetta status á facebook og var að sjálfsögðu minnt á það, af kunningjakonu minni sem er líka með fjölskyldutengsl til Egyptalands, að það væru nú ýmsir hlutir sem mætti laga hérna með því að leggja minni áherslu á ábyrgð Guðs og meiri á ábyrgð fólks. Mig langar þess vegna að skrifa um það sem mætti hér betur fara, því ég get ekki kallað bloggið hlutlaust nema ég fjalli líka um það.
Umferðin
Umferðin í Egyptalandi er bókstaflega ekkert nema kaos. Held ég hafi bloggað um þetta í fyrra líka.
"Chaos: A state of utter confusion or disorder; a total lack of organization or order. 2. Any confused, disorderly mass"
Bókstaflega þetta. Eiginlega ekki hægt að lýsa þessu öðruvísi. Að einhverju leyti finnst mér umferðin alltaf heillandi, mér finnst gaman að sitja í bíl í Kaíró og horfa á fólkið, húsin og göturnar. Borgin sefur aldrei, það er alltaf eitthvað að sjá, alltaf einhver lykt, einhver ljós. Ég reyni að undirbúa mig fyrir langar bílferðir, hef símann fullhlaðinn eða með hleðslubankann með mér, heyrnatól til að hlusta á tónlist, stundum naglalakk, vatnsflösku, hvað sem er til að drepa tímann.
Þótt áfangastaðurinn sé í 20 mínútna akstursfjarlægð, getur umferðin lengt ferðina upp í meira en 50 mínútur. Það fer auðvitað eftir tíma dags, en gott að hafa það í huga.
Hins vegar, þar sem umferðin er svona mikið kaos þá fylgja því umferðaslys, en að jafnaði deyja 10-12.000 Egyptar á hverju ári í umferðarslysum. Flestir í bílslysum eða mótórhjólaslysum (sennilega vegna þess að reiðhjól eru ekki svo algeng), en eitthvað er um að gangandi vegfarendur verði fyrir bíl.
Ég ætla að giska á að hægt væri að fækka þessum slysum ef fólk notaði öryggisbelti, en það eru bara útlendingar eins og ég sem heimta að fá að spenna sig. Í sumum bílum eru bara engin belti og í öðrum er búið að troða einhverjum þar til gerðum stykkjum ofan í festinguna til að bíllinn hætti að gefa frá sér hljóð vegna þess að beltið er ekki spennt. Auk þess eru voðalega fáar umferðareglur virtar og keyra allir í kapp við hvorn annan, með tilheyrandi flauti. Í ofanálag, þá pælir enginn í því að það sé slæmt að setjast undir stýri undir áhrifum, en mörg umferðaslys verða líklega vegna ölvunar bílstjóranna, eða þeir séu á einhverju (yfirleitt búnir að reykja hass).
Mér til mikillar furðu - og gleði - sá ég samt sem áður nokkur glæný umferðarljós á gatnamótum þar sem fyrir ári voru bara lögreglumenn að beina umferðinni. Breytingar gerast hægt, en gerast þó.
En það sem skiptir mestu máli er að breyta viðhorfum fólks, sem virðist bara almennt vera búið að sætta sig við að slysin gerist oft, frekar en að slysin séu undantekning.
Ruslið
Þessi mynd er reyndar tekin í hverfinu okkar, Heliopolis |
Í gær fórum við Maha og hittum vini hennar niðri í Ma'adi, sem er rosalega fínt og gróið hverfi niður við Níl. Við áttum langt samtal um rusl í Kaíró, því eins og margir sem ég hef hitt, þá horfa þau með aðdáunaraugum til 6. áratugarins þegar Kaíró var eins og N-Afrísk útgáfa af París, göturnar voru hreinar og fínar og fólksfjöldinn var ekki eins mikill.
Ég sagði þeim að það vantaði eitthvað átak sem hentar landinu og þeim aðstæðum sem hér eru, til að breyta viðhorfum fólks. Ég man eftir að hafa átt í þrætum við vini mína heima á Íslandi þegar ég var lítil af því að mér fannst það út í hött að þeir hentu nammibréfum á jörðina, í staðin fyrir í ruslafötur, þegar við vorum úti að leika. Í dag, þá er viðhorfið almennt meira á þá leið að það sé óttalega asnalegt að virða ekki náttúruna og henda rusli á jörðina. Fólk er meira að segja farið að flokka rusl og endurvinna í miklu meiri mæli.
Það er auðvelt að segja að það eitt að breyta viðhorfum fólks í Egyptalandi með auglýsingaherferð eða eitthvað, myndi laga þetta vandamál. Ég held reyndar að það væri frábær hugmynd, en það tæklar bara hluta af vandamálinu.
Ég hef hvergi séð ruslagáma hérna. Svona stóra ruslagáma eins og eru oft heima. Það er ótrúlega lélegt skipulag á ruslabílum og ruslasöfnun almennt, svo rusl af heimilum, sem sett er í poka og svo út í tunnu, er tæmt á eina staðinn í nágrenninu sem hægt er að tæma hann á, nefnilega einhverja hrúgu af rusli úti á götu.
Til að byrja með datt mér í hug, okei, hvað ef það væru bara stórir gámar í hverri götu? Þá kom spurningin, hverjir eiga að tæma þá? Jú, þessi þjóð 90 milljóna ætti nú að hafa mannskap í að vinna við sorptöku. Þá komum við samt aftur að viðhorfunum. Það er ekki „fínt“ að vinna í rusli, en hér í ákveðnum fátækrahverfum - eins og í mörgum ríkjum Afríku - er fólk sem býr nánast á ruslahaugum og vinnur sér lifibrauð á því að flokka í gegnum ruslið og nýta það sem hægt er að nýta úr því og selja það svo.
Ég las áhugaverða grein hér, um þrjár öðruvísi hugmyndir fyrir þriðja heims ríki til að tækla ruslavandamál, þar sem sá strúktúr sem við á norðurhveli jarðar passar ekki almennilega inn í þessi samfélög. Til dæmis nefnir greinin það að veita þeim sem nú þegar vinna í ruslatýnslu alvöru vinnu, þar með fá þau stöðugri laun og vonandi betri vinnuaðstöðu, og nýta þann mannafla í að sjá um sorphirðu. Á sama tíma þyrfti þó bæði að bæta við ruslagámum til að fjarlægja ruslið af götunni og að breyta viðhorfum fólks, m.a. með einhvers konar herferð, og sýna þeim að það sé slæmt að henda rusli á götuna.
Það virðist nefnilega vera svo að þetta fari í taugarnar á langflestum, en enginn nennir að gera neitt í þessu vegna þess að „það henda hvort sem er allir rusli á götuna“.
Áreiti
Ég hef persónulega ekki orðið fyrir miklu áreiti hérna úti. Kannski af því að ég ber stundum yfir mér túristalegt yfirbragð eða af því að ég klæði mig víst eins og lítil stelpa svona, þar sem ég er oft með hárið í tagli og með risastór gleraugu.
En, áreiti hérna er þekkt vandamál og því ber ekki að neita. Það felst fyrst og fremst í því sem á ensku er kallað „catcalling“, svona svipað og þegar verið er að flauta á mann, eða þegar maður heyrir „hola guapa“ eða „chiao bella“ á Spáni eða Ítalíu.
Yfirleitt eru þetta ungir tappar (já tappar, gelaðir í drasl, í aflituðum gallabuxum og þröngum bolum), sem eru af minna menntaðri millistétt eða lágstétt. Já það er nefnilega stéttaskipting hérna, eins erfitt og það er fyrir Íslending að viðurkenna, þá sér maður hana í hvívetna.
Konur verða aðallega fyrir áreiti og káfi af höndum þessara tappa þegar þær ferðast í ákveðnum almenningssamgöngum, eins og litlu strætisvögnunum sem fara ekki eftir neinni sérstakri áætlun og eru troðnir af fólki. Ég varð hins vegar vitni af svona catcalling áreiti í fyrsta skipti í gær, þegar við Maha tókum metroið. Við ferðuðumst í sérstökum kvennavagni, sem var bara mjög fínt. Mér finnst reyndar út í hött að það þurfi að vera konuvagnar, en, miðað við þær miklu breytingar sem þarf þá skil ég tilganginn með þeim eins og er.
Henni til mikillar undrunar þá sagði ég henni frá því að metroið í París væri miklu skítugra og vagnarnir miklu hrörlegri en þetta nýlega lestarkerfi Kaíró. Allavega, um kvöldið, á leiðinni heim, þá tókum við metroið til baka. Af einhverjum undarlegum ástæðum hætta konuvagnarnir að vera konuvagnar eftir kl. 21, sem er mega pirrandi og stuðlar ekki að neinu nema að þær konur sem nýta sér vanalega konuvagninn, sleppa því að fara í metroið. Ein ferð í metroinu kostar nota bene 12 krónur og því skiljanlegt að minna efnað fólk vilji nýta sér þessa þjónustu. Í fyrri vagninum sem við vorum í gerðist ekkert varhugavert.
Í seinni vagninum var hins vegar hópur af svona töppum. Þeir voru svona 17-19 ára, sjúklega gelaðir og asnalegir en fannst greinilega fyndið að segja, svo til út í loftið, „hvert ertu að fara vinkona?“, „viltu deila með mér taxa?“ og þar fram eftir götunum. Stelpurnar hliðiná mér horfðu bara á símann sinn og hundsuðu þetta, ég skildi náttúrulega ekki mikið af því sem þeir sögðu og var líka bara í símanum, en Maha sagði þeim að halda kjafti. Fyrst fannst mér það ekki sniðugt og hugsaði, best að hundsa þetta bara. En síðar skildi ég sjónarhorn hennar enn betur. Þegar við fórum úr lestinni, okkur til mikillar gleði á sama stað og þessir drengir, þá skammaði hún þá aftur. Þar sem þeir gátu ekki asnast til að biðjast afsökunar komu eldri menn okkur til hjálpar og leiddu þá að öryggisverðinum. Hann sagði að Maha gæti, ef hún vildi, fyllt út skýrslu og farið með til lögreglunnar. Strákurinn sem hafði haft mest frammi í þessu öllu var nú orðinn eins og lítill kúkur og glottið farið af andlitinu. Auðvitað hnakkreifst hann samt og sagðist ekkert hafa meint með þessu og að lokum urðu endalokin þarna, án þess að skýrslan yrði gerð.
Þegar ég fór svo að melta þetta, þá gat ég ekki annað en verið stolt af henni frænku minni. Hver veit nema þessir óvitar stundi þetta á hverju kvöldi án þess að nokkur stelpa nenni að standa í að þræta við þá? Hvenær ætli þeir hafi síðast orðið eins og kúkar fyrir að vera hálfvitar? Ég fæ sjálfsagt aldrei svör við því, en ég skildi að með því að láta þetta ekki eins og vind um eyru þjóta þá var Maha að stíga skref í áttina að breytingum. Skref sem, því miður, ekki nógu margar konur hérna úti þora að taka.
Við erum nefnilega heppnar, ég og Maha. Við tókum metroið pínu af því að okkur fannst það vera skemmtileg tilbreyting. En við þurfum ekki að nýta okkur almenningssamgöngur mikið hérna því við höfum efni á öðru. Meiri hluti íbúa Kaíró hefur hins vegar ekki val. Fyrir þær sem geta ekki bara sest inn í loftkældan Uber leigubíl, eða sinn eigin bíl, og brunað af stað, þarf að breyta viðhorfum fólks og þar með hegðun þessara tappa. Mæli með lestur þessarar greinar fyrir áhugasama, en hún endar á þessum orðum, sem eru að einhverju leyti hvetjandi:
„We have seen some change. [...] Now, it's accepted that it's a problem. It's debatable as to what level the issue is being discussed and dealt with, but it's at least nice that everyone knows there is an issue. This is the first step.“
Ég elska Egyptaland. Það er samt margt sem þarf að breytast hérna til þess að Egyptum - og öðrum sem hér búa - líði betur í sínu eigin landi. Mér finnst allt í lagi að fólk viti um gallana, sérstaklega þar sem ég mun skrifa um allt það jákvæða líka, til að gefa almennilega heildamynd af landinu mínu - sem hefur alla burði til að verða frábært, tja eða frábærara öllu heldur. Því margt hérna er, ég get eiginlega bara lýst þessu á ensku, amazing.
Margir eru þó að stíga í rétta átt, með meiri meðvitund um vandamálin, meiri orku og vilja til að breyta þeim, meiri áræðni en áður og meiri samstöðu. Ég legg vonir mínar í að þetta muni takast, og þó það sé freistandi að segja bara, inshallah, ef Guð lofar, þá breytist þetta, þá held ég að þau séu sjálf, mörg hver, farin að fatta að það þarf að eiga sér stað breyting í samfélaginu til þess að eitthvað gerist.
Yfir og út þennan daginn,
Það er 35 stiga hiti og ég verð að leggja mig
Miriam
Comments