Stund milli stríða

Sólin er rauðglóandi og heit í morgunsárið. Úti er molla og viftan í herberginu malar, þó hún geri lítið gagn. Það er rakt og svitakeimur í rúmfötunum - en ilmur af ferskjum, eða einhverju öðru dísætu, teygir anga sína inn um gluggahlerana. Í rúminu liggur hálfsofandi, sólbrún stúlka, ferðalangur og heimshornaflakkari. Milli svefns og vöku reynir hún að muna hvar hún sé. Einhvers staðar í bandarískri eyðimörk, litlum smábæ með bensínstöð og móteli. Það glittir í bílinn fyrir utan og hún saknar þess að sofa í honum, þó að ákvörðunin um að gista á þessum niðurnídda stað hefði verið tekin af fúsum og frjálsum vilja. Tónlistin berst henni til eyrna og hún gægist út undan augnlokunum. Þarna er gítarleikarinn, eins og dagdraumur að morgni þegar maður vill ekki vakna, og spilar eitthvað út í bláinn. Fingur hans snerta gítarinn af varkárni, einhvers konar forvitni, en samt er ákveðni í tónunum. Alveg eins og þegar hann snertir hana og spilar á hennar strengi.

Hún er þyrst, en lokar augunum og fer aftur að sofa. Þessi dagur verður heitur.

Comments

Popular Posts