Hugleiðingar ferðalangs

Eins og þeir sem þekkja mig vita þá tolli ég sjaldnast heima hjá mér of lengi. Það hefur þess vegna hentað flökkukindinni í mér ágætlega að vinna sem flugfreyja í sumar til að fullnægja þessari útþrá. Egyptaland hefur samt sem áður verið að kalla mig til sín, alveg síðan ég fór héðan síðast. Aðstæðurnar voru aðrar þá, en á meðan ferðinni stóð var pabbi að berjast við krabbamein, bæði hérna úti og heima á Íslandi og lést síðan í apríl eftir baráttuna við þennan illvíga sjúkdóm. Ég ætla nú ekki að skrifa neitt mikið meira um það, en kannski betra að hafa orð á því að heimþráin til föðurlandsins var ekki einungis fyrir þær sakir að mig langaði að koma og kíkja, heldur vegna þess hve erfið dvölin var hérna síðast - þó ég hafi ekki alltaf gert mér grein fyrir því sjálf hve mikil áhrifin af veikindunum hans voru á mig, þá sá ég það eftir á að ég var ekki alltaf með sjálfri mér á meðan. 

En nóg af því, nú er ég komin aftur. Ég ætla að reyna að hafa þessi skrif fræðandi um land og þjóð og staðhætti hér, til að kynna ykkur fyrir landinu mínu, kannski losa um einhverjar staðalímyndir (og kannski styrkja aðrar). Áður en ég byrja á því, þá langar mig að kveðja Ísland í bili með þeim hugleiðingum sem ég átti í fluginu til Heathrow í gær. 

Þegar ég valdi mér sæti á British Airways appinu þá reyndi ég - af gömlum vana - að finna mér gluggasæti. Enda búin að eyða sumrinu inní flugvélum þar sem ég get lítið setið og glápt á útsýnið. Fannst ég eiga það skilið. 

Ég hugsaði samt ekkert út í það hver mögulegur sessunautur minn gæti verið, en mér datt svosum ekki í hug að hann yrði sá sem hann var. 

Við hlið mér settist eldri maður frá Íslandi, sem fannst gaman að spjalla. Ég er svolítið laus í málbeininu sjálf svo mér þótti alls ekkert verra að ræða við manninn, þó stundum hafi ég gripið tækifærið og horft út um gluggann. Hann var einkar vinsamlegur, svona eins og fólk er flest, og við vorum sammála um ýmis málefni líðandi stundar eins og húsnæðismál, hvernig er komið fram við fíkla og hvernig fangelsismálum er háttað. Og ýmislegt annað.

Hann var allan tímann kurteis, og ber ég alveg vel af honum söguna ef út í það er farið, en tilgangur þessarar frásagnar er hins vegar að benda á annað. Að ganga út frá því að allir séu sammála manni. Ég geng aldrei út frá því þegar ég á samtöl við ókunnuga, að þeir séu sammála mér í öllum þeim málefnum sem skipta mig máli. Þegar blessaður maðurinn fór að ræða um það við ættum í vandræðum með alla þessa atvinnulausu útlendinga sem lifðu á kerfinu á Íslandi og værum að borga gífurlegar fjárhæðir undir uppihald þeirra á Íslandi þá hugsaði ég, „æ vinur, erum við að fara í þessa átt?“ 

Tveir og hálfur tími eftir af fluginu.

Ég nefndi því við hann að ég ynni nú sem sjálfboðaliði hjá Rauða Krossinum og viðhorf skjólstæðinga minna til vinnu væri yfirleitt óþolinmæði sem sprytti upp af því að finna enga. 

Þegar það vill enginn ráða þig af því að þú heitir Ahmed og fólk dæmir þig svo fyrir að vera atvinnulaus og „lifa á kerfinu“, hvað áttu þá að gera? Nú auðvitað fara aftur heim í sprengjuregnið sem þú varst að flýja. Eða eitthvað, ég veit það ekki. 

Svar hans við umræðu minni um Rauða Krossinn var svo á þá leið að það væru auðvitað einhverjir sem vildu koma og vinna, en vildi einmitt benda mér á þá stórmerkilegu staðreynd að múslimskar konur vinna auðvitað aldrei. „Nei, þær fara aldrei út á vinnumarkaðinn.“ 

Að einhverju leyti hefði ég svosem verið til í að þetta væri satt, því ég er í hálfgerðum vandræðum með frænkur mínar og vinkonur á meðan ég verð hérna í Egypt, því þær eru allar í fullri vinnu og ég verð því að hafa ofan af fyrir mér sjálf á virkum dögum. Hræðilegt alveg hreint hvað þær eru sjálfstæðar. Ein frænka mín er meira að segja eigandi fyrirtækis og hefur margoft verið verðlaunuð fyrir að vera ein af framsæknustu viðskiptakonum Miðausturlanda. Og hvers á ég að gjalda að vera að koma í heimsókn ef allir eru uppteknir og geta ekkert skemmt mér á meðan?

Uppruni þessarar fullyrðingar hans snertu konur sem komu úr flóttamannabúðum til Íslands fyrir 8 árum (hann reyndar talaði um 15 ár). Án þess að þekkja nokkuð til þeirra ætla ég að leyfa mér að giska á að það hafi vafalítið tekið tíma fyrir þær að fá vinnu, og læra til þess íslensku, eftir að hafa búið í flóttamannabúðum við erfiðar aðstæður í mörg ár. Sessunautur minn var reyndar alveg sammála því að fólk sem hefði upplifað slík lífsskilyrði ætti oft erfitt með að fóta sig fyrst um sinn, en það var eiginlega eins og enginn hefði bent honum á það fyrr.

Það er nefnilega þannig. Maður getur farið með rangt mál, óafvitandi, í heljarinnar tíma og af mikilli sannfæringu ef maður hefur aldrei skoðað eða verið bent á að nálgast efnið frá annarri hlið. Þess vegna langar mig að reyna að lýsa hugleiðingum mínum um Egyptaland fyrir ykkur á meðan ég er hér. Það er líka hægt að fylgja mér á snapchat, miriampetra, hafi einhver áhuga á því.  

Að lokum; sem afkomandi innflytjanda sem hefði ekki átt eins auðvelt með að flytja til Íslands hefði hann komið sléttum 50 árum síðar, og bar hið óæskilega nafn Ahmed (sem þýðir nota bene „sá sem er lofaður“), vildi ég sýna manninum í fluginu að brúna stelpan sem heklaði ljótt fjólublátt blóm og litaði í litabók til að drepa tímann, væri bara ósköp kurteis og málefnaleg, þrátt fyrir erlendan upprunan.

Afkomandi útlendings sem aðlagaðist bara svona andskoti vel að ég er án djóks að reyna að hekla. Mér til skemmtunar. 

Okei, ég viðurkenni það líka, ég var við gluggasæti og nennti ekki þriggja tíma rifrildi. 
En, hvað sem því líður, þá lærði nýji vinur minn kannski smá á þessu samtali, eins og ég lærði á því að ræða við hann, og vonandi geta þessi skrif orðið að jákvæðum innblæstri hjá einhverjum öðrum líka. 

Bestu kveðjur frá Kaíró,
Miriam

Comments

Popular Posts