Sítrus


Hægur andvarinn feykir hvítum gluggatjöldunum letilega inn í herbergið. Sólin kitlar nefið með léttri snertingu sinni og fuglarnir eru komnir á stjá. Inn berst ómur af lífi í litlum bæ og sjávarnið sem skellur mjúklega á klettum. Í eldhúsinu er lítið útvarp í gangi, sem farið er að sjá á vegna ára sinna. Samanvöðlað morgunblað liggur á eikarborðinu og á litríkum mósaíkdisk eru tvö smjördeigshorn sem bíða þess að vera smurð, nýbökuð og volg. Jarðaber í öskju svitna í sólinni, en ferskleiki þeirra er í miklu uppáhaldi hjá sumum.

Nýkreistur appelsínusafinn í glösunum á borðinu er kaldur og bíður þess að vera drukkinn.

Hún gengur aftur inn í litla herbergið. Sængin sem hún skildi eftir liggur í óreiðu. Hún ýtir henni til hliðar og virðir stuttlega fyrir sér útsýnið út á hafið og litlar eyjar í fjarska. Síðan leggur hún höfuðið rólega niður og andar að sér þessum kunnuglega sítrusilm. Sítrusilmur sem á hvergi annars staðar heima en þarna. Við snertingu er húðin hlý og mjúk - og andardrátturinn rólegur. Himinblá augu opnast og kyssa hana með augnaráði sínu. Tíminn stöðvast og það er ekkert nema þessi morgunn, það sem eftir er. 

Comments

Popular Posts