Draumórar í janúar

Þú lokar augunum. Sængin er hlý og jólaljósin lita herbergið bleikt. Það er kærkomið á veturna að fá smá birtu í líf sitt, í náttmyrkranna landi. Eftir smá stund sérðu fyrir þér bjartan, bleikan himin. Kvöldsólin ætlar ekki að setjast, jökullinn handan flóans geislar og það er lykt í loftinu sem fær hárin til að rísa í eftirvæntingu. Ævintýralegri eftirvæntingu. 

Lykt af mold, grasi og laufi. Lykt af sjó sem skellur létt á steinum og kannski smá þefur af þaranum í flæðarmálinu. Fuglarnir eru ekki farnir að sofa, hví ættir þú að gera það?

Lungun fyllast af hreinu, tæru lofti og þú kastar þér niður í græna breiðuna. Sængin er löngu gleymd. Á himninum eru mjúkar rákir skýjanna í fjarska, svo langt frá, en samt svo áþreifanlegar.

Og þar sem þú liggur og horfir upp í trén, liggur Sumarið líka. Það rennir fingrum í gegnum hár þitt og andvari þess gælir við húð þína. Varir ykkar mætast og þú bráðnar í himinbláum augum. Sumarið er komið, með sín ævintýri og sína draumóra. 

Á miðjum vetri, í náttmyrkrinu, er þessi minning sáluhólpari, bjargvættur. Sumarið sofnar undir sænginni og bíður eftir að koma þér á óvart.

Comments

Popular Posts