Smásaga / örsaga

Spilist við lestur þessarar sögu. Rihanna, Stay (feat. Mikky Ekko)


Það var gott að koma út í ferskt loftið þetta mánudagshádegi. Tilhugsunin um að vera undir sæng var þó sterk, enda virkilega ljúf helgi í hennar samvist að baki. Eins og oft áður velti hún því fyrir sér hvers vegna hún gæti ekki bara búið sér til nesti, frekar en að þurfa að rölta í matvöruverslun í hádeginu. Sökum einbeitingarleysisins sem fylgdi áhyggjum persónulegra þanka greip hún yfirleitt rándýra tilbúna rétti en kvartaði svo ítrekað við vini og vandamenn yfir peningaleysi. Undirmeðvitundin velti ástinni fyrir sér. Hún tiplaði á tánum í kringum orðið, þótti erfitt að átta sig á þýðingu þess. Bónorðið var varla langt undan, en samt sem áður efaðist hún nóg um eigið ágæti til að útiloka að það yrði yfirhöfuð að raunveruleika. Við afgreiðslukassann tók hún heyrnatólin úr eyrunum, af einskærri kurteisi, svoleiðis gerir maður í búð sjáðu til, og tók sér stöðu í röðinni. Í hátalarakerfinu barst ómur af lagi, það byrjaði rólega og fljótlega var hún farin að söngla með. Söngur um ást og löngun, úr heimi sem virtist órafjarri raunveruleika verslunarinnar, en ekki svo fjarri hennar eigin. [Not really sure how to feel about it, something in the way you move]
Maðurinn fyrir framan hana sneri sér við og ávarpaði afgreiðslustúlkuna þurrlega. Rétt áður en hún náði að dæma þennan þreytulega en sterkbyggða mann tók hún eftir því að hann flautaði dauflega í takt við lagið. Sama lag og hún raulaði fyrir munni sér.

Hann hafði rétt stokkið niður úr pallbílnum þegar skilaboðin birtust á símanum hans. Hvort þau ætluðu ekki örugglega að hittast í kvöld. Hann gerði ráð fyrir því, en í hvert skipti sem hann mælti sér mót við hana ákvað hann að nú væri komið nóg. Hann vildi segja henni svo margt. Segja henni að tilfinningar hans væru sterkari en þær líkamlegu þrár sem henni fannst svo frábært að þau deildu. Engar tilfinningar, ekkert vesen, hafði hún sagt. Hann greip samloku úr kæliskápnum og hélt rakleitt að gosrekkanum eins og í leiðslu, slíkur var vaninn. Í hvert skipti sem hún sparkaði lauslega af sér skónum í anddyri kjallaraíbúðarinnar vildi hann segja henni það. Hversu mikið hann vildi elda fyrir hana, sjá hana vakna og bjóða henni góðan daginn. En óttinn við að missa þessar fáu dýrslegu stundir með henni var slíkur að hann hélt áfram að troða tilfinningum sínum niður í buxurnar. Hann leit afgreiðsludömuna í augun og hætti að flauta með laginu í útvarpinu til að bjóða lágt góðan daginn. [Makes me feel like I can't live without you, it takes me all the way. I want you to stay]
Lagið talaði að minnsta kosti til hans, en annars fannst hann enginn sýna þessu skilning. Hann var jú að sofa hjá henni, var hann ekki lukkunnar pamfíll? Hann tók ekki eftir augnaráði stúlkunnar í röðinni en afþakkaði miðann úr hendi kassadömunnar með handapati.  

Hana verkjaði í fæturna. Tíminn leið hægt og kvöldið virtist í órafjarlægð. Þrátt fyrir að henni líkaði starfið ekkert óskaplega, þá var hún í það minnsta á launum og það í heiðvirðri vinnu. Hún velti stundum fyrir sér viðskiptavinunum sem urðu yfirleitt mun fleiri í kringum hádegið. Sumir litu hana hornauga þegar hún einbeitti sér að bera fram óþjál orðin. Aðrir brostu að vinnusemi hennar og hrósuðu henni. Flestir létu þó bara eins og ekkert væri. Henni þótti það best. Helst vildi hún loka augunum og hugsa um hlýjan vindinn sem snerti eflaust við trjánum á hennar æskuslóðum. Loka augunum og hugsa um hátt grænt grasið og öll villtu blómin. Fjöllin í fjarska, sem voru iðulega sveipuð skýjum en klædd í þokuslæður í morgunsárið, gat hún séð fyrir sér svo ljóslifandi að þau gætu allt eins verið hér inni. Í þessari matvöruverslun. Alltaf þegar sending af framandi ávöxtum kom reyndi hún leynilega að sjá hvort eitthvað væri þaðan. Ef hún gæti snert einn, ekki nema einn ávöxt, haldið honum í höndum sér, þá vissi hún að regnið sem áður fyrr hafði vætt hár hennar hafði vakið hann til lífs. Hann væri kominn af sömu jörðu og hún, þeirri sem hún hefði átt að verða aftur. Það slokknaði á ímyndunaraflinu og fýlulegur maðurinn fyrir framan hana hætti að flauta og bauð góðan daginn. Ónæm fyrir hljóðinu í kassanum varð hún vör við lagið sem var í útvarpinu og greip laglínuna á lofti. Næst í röðinni var ung kona sem virtist líka raula í takt. [It's not much of a life you're living, it's not just something you take, it's given]
Það var ekkert líf þar sem hún hafði lifað. Stríðið tók það burt og hún vissi að mynd hennar af fjöllunum, þokunni, rigningunni og grasinu var ekki rósrauð og falleg. Hún var blóðrauð núna. Líkurnar á því að ávextir landsins bærust svo langt norður voru sennilega litlar, en úr því hún sjálf var örugg, þá útilokaði hún ekkert. Kannski kæmi hann líka einn daginn. Hún brosti og henti enn einum strimlinum. 

[Round and around, and around, and around we go. Oh no tell me, now tell me, now tell me, now you know].




Comments

Popular Posts