Að opna augun

Þessi pistill er um að opna augun, ekki í líkamlegum skilningi.
Ég á reyndar oft erfitt með að opna þau á morgnana því að kúra er eitt það besta sem ég veit. 

Í þetta skipti ætla ég heldur ekki að skrifa um menningarmismun og að opna augun fyrir honum, eins mikilvægur og hann er í mínum huga. Ég ætla samt að nefna að ég er með dregið frá glugganum þar sem ég sé í bleikroðin ský á íslenskum sumarhimni, kertaljós og hlusta á folk-rokk hljómsveitina Cairokee. Ágætis blanda sem drepur engan. Hvað þá einhver íslensk gildi...

En að efninu. Að opna augun fyrir því að það er eðlilegt að finnast maður vera fastur í sama farinu. Eðlilegt að maður sé leiður yfir því. Það eru það allir, þó sumir séu það ekki nema í fimm sekúndur og aðrir í langan tíma - þá er það samt mannlegt. Við erum flest nýjungagjörn og eftir að ferðalög fóru að verða auðveldari þá fylltumst við mörg flökkuþrá (þ. wanderlust). Við þráum alltaf að fara burt.

Það gleymist þó oft að það getur verið gott að koma heim líka. Og það getur verið hættulegt að gleyma því. Tilfinningin að maður sé að missa af einhverju. Vegna þess að einhver annar er mögulega að upplifa það sem maður hefur upplifað sjálfur (eða dreymir um að upplifa) - þó svo að í sannleika sagt þá getur enginn notið sama hlutarins á sama hátt. Maður er svo upptekinn af því að missa af einhverju langt í burtu að maður missir af fallegum stundum sem bíða við næsta húshorn. 

Og þegar maður er fallinn í þá gryfju þá getur manni nefnilega fundist andskoti erfitt að klifra upp úr henni. En það þarf ekki mikið. Blessunarlega er þessi gryfja ekki þessa heims, ekki bókstafleg. Það eitt að draga frá glugganum og horfa á skýin. Kveikja á kertum. Fara ekki bara út með ruslið heldur fara í göngutúr í kringum húsið og taka þá eftir sólsetrinu og rauðum sjónum. Hlaupa inn af því að húsið brennur útaf kertunum. Nei djók. Grín. Ekki gleyma að slökkva á kertunum.

Ég veit að það er allt í andskotans hakki á þessu skeri. En sama hvar maður á heima, þá getur verið gott að koma heim og taka smá hlé á öllu öðru. Njóta þess að borða ís eða væla yfir veðrinu. Fara í sund. Fá knús. Tala móðurmálið sitt.

Góð vísa er aldrei of oft kveðin, en litlu hlutirnir skipta máli. Oft eru litlu hlutirnir bara selskapur þeirra sem maður er vanur að hafa í kringum sig og tilheyra því „heima“. 

Og það er um að gera að njóta þess að vera heima þegar maður þarf að vera þar, áður en flökkuþráin tekur yfir mann aftur. Því sama hversu langt maður fer, þá reikar hugurinn alltaf heim, þó það sé ekki nema til að kasta kveðju á þá sem maður elskar. 

Comments

Popular Posts