Að tilheyra tveimur löndum

Eins mikill Íslendingur og ég er, þegar kemur að menningarlegum mismun mínum við föðurlandið, þá hef ég allt í einu upplifað mig miklu egypskari en áður. Veit ekki hvort þetta sé vegna þess að ég hef aldrei áður verið hérna svona lengi eða hvort þetta sé vegna þess að ég er farin að skilja tungumálið betur. En eitthvað er það, ég hef allt í einu fundið hluta af mér sem mér fannst áður vanta. Kannski eru það allir yndislegu nýju vinirnir og fjölskyldan sem ég á hérna.

Fólk hefur ýmsar skoðanir á Mið-Austurlöndum og byggjast þær á mörgum mismunandi grunnum. Það má alls ekki setja öll þessi lönd undir sama hatt og alls ekki dæma alla einstaklinga fyrir gjörðir eins. Líkt og ég hef nú áður minnst á (í lífinu).

Egyptaland er suðupottur allskonar menningar og trúarbragða. Fyrir utan íslam þá má hér finna fjöldan allan af kirkjum, sem tilheyra mörgum mismunandi kristnum söfnuðum. Ég fór til að mynda í eina stærstu kirkju Egyptalands þegar ég var í Aswan. Hún var reyndar heldur lítil þegar maður var kominn inn, en byggingin sjálf algjört ferlíki. 

Ég ætlaði reyndar ekkert að fara að tala um trúarbrögðin sjálf. Mér datt bara í hug að minnast á viðhorf fólks til trúarbragða. Nú þekki ég takmarkaðan fjölda fólks hérna, svona miðað við þær 90 milljónir sem hér búa, og get þ.a.l. ekki talað nema fyrir lítinn hluta.

Enginn sem ég þekki hér hefur kippt sér upp við það hverrar trúar ég er. Ég tek aldrei eftir því að flestir vinir mínir séu annarrar trúar en það fólk sem ég hef verið í mestum samskiptum við í lífinu, og hefur það ekki nokkru sinni gerst að það hafi eitthvað truflað samskipti mín við þau. 

Ég hef farið í klikkuð strandarpartý þar sem fólk af allskonar trúarbrögðum kom saman og farið í veggtennis og bubblufótbolta þar sem enginn pældi í neinum trúarbragðarmun á fólki (þótt það hefði vel verið mögulegt ef einhver hefði haft áhuga á því að vera með leiðindi - Egyptar eru, að mínu mati, yfirleitt ekki mikið fyrir leiðindi).

Hvað meina ég með öllu þessu? Jú, bara það, að þau eru ekkert svo öðruvísi en við. Það eru að sjálfsögðu ýmsar samfélagslegar reglur hérna sem mig langar að æla á, enda allskonar menningarlegur munur sem bíður upp á svoleiðis. En að ætla að fólk héðan sé eitthvað verra fólk en annað, upp til hópa, vegna þess eins að það er annarrar trúar, er hreint út sagt bara kjaftæði.

Hérna hef ég fundið hluta af sjálfri mér sem dillir sér við skrítna miðausturlenska tónlist, kann einhvern veginn ósjálfrátt allar danshreyfingar og næ framburði orða frekar auðveldlega. 

Auk þess hefur dvöl mín hérna sýnt mér svart á hvítu hvaðan ég hef allar þessar handahreyfingar þegar ég tjái mig. Þær eru augljóslega egypskar.

Ég mæli hiklaust með Egyptalandi sem áfangastað. Það er fáránlega mikið hægt að skoða hérna og ég sé það að á þeim tíma sem ég hef verið hérna að ég hef ekki skoðað nærri nógu mikið. Ég ætti að skoða meira.

Hérna er hægt að gera nánast hvað sem er, þ.e.a.s. eigi maður smá pening, þannig að lífið hérna er alls ekki eins slæmt og ég gerði mér í hugarlund áður en ég kom. 

Það er líka sól alla daga. Í dag var ég löt, uppi í rúmi að horfa á bíómyndir og slappaði af - án þess að fá samviskubit yfir því að missa af góða veðrinu. Því það verður þarna á morgun líka...

Góða drauma elskur,

تصبحو على خير

Comments

Popular Posts