Vorið er komið, víst á ný

Það er hiti í kortunum í Kaíró þessa dagana og spáir yfir 30 stigum um helgina. Á morgun á hitinn að fara upp í 38°C og ég veit ekki alveg hvernig það verður. Mér finnst nógu heitt hérna þegar það eru 25°C í sólinni, finnst ég svitna meira en nóg.


Ætli ég reyni ekki bara að fara meira til Rauðahafsins og baða mig í sólinni.
Ég gæti sagt að ég geti huggað mig við það að ég verði ekki í Kaíró núna á föstudaginn en þar sem ég verð mun sunnar í landinu þá efast ég um að það breyti nokkru þar um.

Ég á nefnilega bókað flug til Aswan á morgun. Þaðan mun ég sigla til Luxor og skoða einhver hof og skemmtilegheit á leiðinni. 

It's getting hot in here... 

Ég get þó allavega huggað mig við það að ég verð á skipi með sundlaug. Eða ég vona það allavega.



Ég vissi í sjálfu sér lítið um Luxor og Aswan áður en ég kom hingað og það var í rauninni ekki mín hugmynd að skella mér þangað. En það voru aðrir en ég spenntir fyrir því að fara þangað - upphafi reyndar mun fleiri - en við verðum á endanum bara tvær sem förum saman.

En það breytir því ekki að þetta eru vissulega spennandi áfangastaðir.

Aswan hét áður fyrr Swenett og var landamæraborg Forn-Egyptalands til suðurs. Nafnið á víst að koma frá gyðju sem hét sama nafni. Þessi gyðja var síðar kölluð Eileithyia af Grikkjum og Lucina af Rómverjum þegar þeir réðu yfir Egyptalandi, vegna líkinda þessarar egypsku gyðju við þeirra eigin, en allar voru þær gyðjur barnsfæðinga. 

Vegna þess að forn-Egyptar töldu uppruna sinn koma frá suðurhluta árinnar Níl þá var borgin alltaf talin sú fyrsta í landinu og talað um að Egyptaland hefði fæðst eða byrjað í Swenett (samanber að gyðjan var fæðingagyðja). 

Mikið var um góðar grjótnámur við Swenett sem útskýrir allan þann aragrúa af hofum og styttum sem þar finnst nú í kringum borgina Aswan. 

Luxor er heldur norðar en Aswan, en talað er um hana sem heimsins besta forngripasafn undir berum himni, þar sem rústir hofanna Karnak og Luxor eru innan borgarinnar sem þar stendur í dag. Andspænis borginni, á vesturbakka Nílar, eru minnismerki, hof og grafhýsi Necropolis (borg hinna dauðu), sem og Dalur Konunganna og Dalur Drottninganna (Valley of the Kings/Valley of the Queens).

Ég veit í sjálfu sér ekki nákvæmlega hvað af þessu er innifalið í ferðinni sem ég fer í, þar sem ég er ekki alveg orðin nógu fær í að lesa leiðarlýsinguna, sem er á arabísku.

En ég bíð spennt. Þetta verður eitthvað! 

Comments

Popular Posts