Þrautir og raunir

Í ljósi viðburða síðustu daga langar mig að kynna ykkur fyrir nýja vini mínum, Mugamma (eða Mogamma, مجمع التحرير).

Þegar Egyptar heyra orðið Mugamma, fer hrollur um þá og þeir vorkenna þér fyrir kynni þín af Mugamma. Af innilegri einlægni. 

Þegar ég hugsa um Mugamma dettur mér helst í hug hrægammur. Bæði af því að orðin hljóma eins en einnig vegna þess að Mugamma trónir yfir Tahrir torgi og gerir sig líklegan til að gleypa allt og alla (og tortíma öllu lífi á jörðinni, eins og sagði í Litlu Hryllingsbúðinni).

Kannski ekki alveg svo dramatískt. 

Mugamma er bygging. Mugamma er stofnun. Mugamma er ráðuneyti þar sem nánast öll skriffinska og umsóknir fara fram. 

Þ.e. dvalarleyfi, útgáfa vegabréfa, ökuskírteina, nafnskírteina, sem og vegabréfsáritanir og ýmislegt sem ég varð sennilega ekki vör við utan þeirrar einu hæðar sem ég heimsótti. Þær eru 14 og u.þ.b. 18 þúsund manns hafa þar einhvers konar atvinnu.

Mugamma trónir eins og hrægammur yfir nærliggjandi svæði

Síðastliðinn mánudag fór ég til Mugamma að sækja um framlengt dvalarleyfi. Sem ferðamaður fékk ég vegabréfsáritun sem gildir í mánuð í gegnum sendirráðið í Osló (og er hægt að fá á flugvellinum líka) en þar sem ég ætla mér að vera hér lengur en í mánuð varð ég að fá framlengingu.

Ég mætti með passamyndir, ljósrit af myndasíðunni í vegabréfinu og ljósrit af vegabréfsárituninni úr vegabréfinu líka. Fæðingarvottorðið var ég með mér líka (bara af því að ég var með afrit af því hvort sem er) og einhver önnur blöð um það hver ég nú er.

Fyllti út eyðublað um það hvers vegna ég vildi nú fá þessa blessuðu vegabréfsáritun og skilaði inn (eftir mikið maus og mikið kaos).

Það er eiginlega ekki hægt að ímynda sér ringulreiðina þarna inni. Þú kemur inn í anddyrið og ferð upp stigann til hægri. Þar ferður aftur í gegnum öryggisleitarhlið, eins og við aðalinnganginn, en eins og í fyrra skiptið virðist fólki nett sama þótt það pípi á þig. 

Gangarnir eru án djóks eins og í völundarhúsi.
Ef ég man þetta rétt þá fór ég til hægri eftir öryggisleitina, svo aftur til hægri á miðjum ganginum, þar fór ég til vinstri og svo aftur til hægri. Þér líður eins og þú sért að ganga í hringi af því að allir básarnir eru númeraðir og fyrir utan þá sem sjá um vegabréfsáritanir þá eru þeir einungis á arabísku þar sem þeir snúa að einhverju sem líklegast bara Egyptar sækja um. 

Allavega. Forðum okkur út þann daginn og stefnum á að koma til baka kl. 9 daginn eftir að sækja áritunina. 

Dagur 2

Klukkan 9 daginn eftir mætum við og ætlum að ná í hana. Þá er okkur sagt að bíða í þrjá tíma. Ég þurfti að mæta í arabískuskólann kl. 11 svo ég vildi helst bara koma aftur daginn eftir. Þá upphófst eitthvað bölvað vesen.

Egyptar trúa því nefnilega oftast að það sé einhver auðveldari leið til. Allskonar krókaleiðir eflaust hægt að taka og frænka mín vildi endilega láta á það reyna hvort við gætum fengið þetta gert strax.

Ég persónulega var alveg sátt við að sækja visað mitt daginn eftir, enda búin að lesa mér til um ferlið og ekkert að stressa mig á því að fara aftur niður í miðbæ að sækja svosem eitt blað.

En það var ekki svo einfalt. Yasmine fer að einni konunni þarna og segist vera hérna með frænku sína og að hún vilji fá túristavísa, helst samdægurs.

Kona í lúgu nr. 16 (fyrir túristavísa), köllum hana bara Jónu - þó hún hafi sennilega heitið einhverju arabískara, eins og Fatima eða eitthvað.

Jóna: "Frænka þín?"
Yasmine: "Já, dóttir frænda* míns" - Hér eru miklu nákvæmari orð yfir skyldmenni, orðið sem hún notar gefur til kynna að ég sé dóttir föður/móðurbróður hennar.
Jóna: Hún er semsagt egypsk?
Yasmine: Þú veist, þannig. En hún er bara með íslenskt vegabréf.
Jóna: Hún er egypsk.

Hún segist ætla að hjálpa okkur að gera þetta auðveldara og skrifar á umsóknina mína að ég sé egypsk. Ég veit ekki hvað í andskotanum Egyptar vilja meina með auðvelt þegar þeir segja eitthvað svona en þetta hefur nákvæmlega ekki auðveldað mér neitt. Bara flækt málin.

Eftir þetta fórum við og töluðum við einhvern mann sem sér um umsóknir um egypsk skilríki. Hann gat ekki hjálpað okkur því fæðingarvottorðið mitt var ekki á arabísku og við löbbuðum í nokkra hringi og skiluðum síðan blaðinu aftur til konunnar sem lofaði að koma því til túristavisa deildarinnar. 

"Komdu aftur á morgun kl.9"

Dagur 3

Við mætum klukkan 9, ég spennt að fá loksins visað - en grunaði samt nokkurn veginn það sem var í vændum. 
Ég beið í röð visa úrlausnanna og þegar ég rétti konunni vegabréfið mitt fann hún ekki skjalið mitt. -Frábært.  Ég vil einnig benda á að ekkert, nákvæmlega ekkert, þarna er gert með tölvum. Það eru blaðabunkar út um allt og einhvern veginn kunna starfsmennirnir á þessa ringulreið (og ef eitthvað hverfur í svarthol pappírsins sem er þarna á öllum borðum og hillum þá er það ekki þeirra vandamál).

Mér datt þá í hug að það væri ennþá hjá konunni frá deginum á undan (vinkona mín, hún Jóna) og við fórum til hennar aftur.

Jújú, hún var með blaðið á nákvæmlega sama stað. Neitaði að láta okkur hafa það og sagði að ég gæti ekki fengið túristavísa þar sem ég væri egypsk. "Við útbúum ekki túristavisu fyrir Egypta". (Fyrirgefðu en hefðirðu ekki getað sagt þetta í gær, elskan?)

"En ég er bara með íslenskt vegabréf!!!"

Pabbi þinn er egypskur, þá ert þú egypsk.

Þarna upphófst mikið rifrildi sem ég skyldi voða lítið í, nema orð eins og íslensk, egypsk, faðir og "ekki mögulegt".

Það merkilega við þetta var að hún (og allir sem komu við sögu á eftir henni í þessari hræðilegu byggingu) sögðu mér að ég væri egypsk eins og þeir væru að segja mér bestu fréttir í heimi. 
Jú, að sjálfsögðu er ég alveg egypsk skiljiði, en ég á bara íslenskt vegabréf, engin egypsk skilríki og ég þarf - samkvæmt lögum - að vera með framlengt túrista vísa í vegabréfinu mínu.

"Þú getur aldrei verið ólöglega í Egyptalandi elskan því þú ert egypsk" 
Okei, ég vil alveg sækja um egypsk persónuskilríki til að auðvelda mér lífið hérna en jésús minn góður ég vil bara fá þetta helvítis túristavísa í vegabréfið svo ég sé amk hérna löglega þangað til ég fæ hin gögnin.

Þau skildu það ekki. Horfðu bara á mig eins og ég væri gjörsamlega vitlaus og hefði ekki fattað þá guðsgjöf að hafa verið "Egyptian from the moment your mother got pregnant". 

Ég sagði sennilega að ég vildi bara fá helvítis vísað í vegabréfið mitt, á ensku, við að minnsta kosti tvo til þrjá starfsmenn, enda farin að vera nett pirruð á því hvernig var talað við mig (þó það væri á arabísku þá skyldi ég tóninn). Maðurinn frá deginum að undan sagði það sama, að ég væri bara egypsk og gæti því ekki fengið áritunina, og af því að ég var svo brjáluð þá enduðum við inni á skrifstofu hjá einhverjum yfirmanni sem talaði þónokkuð góða ensku og gat útskýrt þetta allt fyrir mér aftur, eina ferðina enn. Hann var með þrjár gylltar stjörnur og gullörn á öxlunum svo ég áleit hann sennilega nokkuð merkilegan og ákvað að æsa mig ekki við hann.

Svo gæti maður spurt sig, hvers vegna hefur þetta flækt málin svona svakalega?

Vegna þess að ég verð núna nauðsynlega að fá egypsk skilríki svo ég sé ekki hérna ólöglega. Samkvæmt þessu fólki í Mugamma er tæknilega séð bara nauðsynlegt að sýna fæðingarvottorðin okkar pabba til að sanna þetta en það dugar sennilega ekki þegar ég fer út úr landinu. Þá gæti ég mögulega verið rukkuð einhverja upphæð fyrir að brjóta lögin. Frábært. 

Til þess að fá egypsk skilríki, þá þarf ég semsagt að:

Láta þýða fæðingarvottorðið mitt.
Fá stimpil frá danska sendirráðinu hér á þýðinguna og upprunalega eintakið.
Fá stimpil frá egypska utanríkisráðuneytinu.
Fara aftur í Mugamma (yfirmaðurinn þarna bauðst til að hjálpa mér ef ég kæmi þegar hann væri í vinnunni, svo það er ekki öll von úti)
Bíða í nokkrar vikur
Fá skilríki.

Eins og er þá er ég búin að láta þýða fæðingarvottorðið mitt. Hinsvegar vildi gæinn í danska sendirráðinu bara stimpla þýðinguna en ekki upprunalega eintakið þar sem það er enginn stimpill frá íslenska utanríkisráðuneytinu á fæðingarvottorðinu mínu.

Sem er líka ekki upprunalegt eintak heldur. Bara skannað afrit prentað úr litaprentara heima, en enginn hér virðist taka eftir því (hehe).

Þannig að núna bíð ég spennt eftir að fá fæðingarvottorð mitt sent frá Íslandi, stimplað frá Utanríkisráðuneytinu heima svo ég geti borgað morðfjár (aftur) fyrir stimpla hér frá ýmsum aðilum.

Thank god fyrir ströndina, gin og tónik og sól. Annars hefði hausinn á mér sennilega sprungið á síðustu dögum.


Comments

Popular Posts