Gömul borg með gamla sál

Galopnar rúður og bílar sem keyra hratt. Lykt af mat og mengun. Hávær tónlist úr næsta farartæki. Autotune-uð arabísk tónlist. Glæný lög af vinsældarlistum utan úr heimi. Hróp, köll og hestakerrur.

Endalausar flautur, aldrei þögn.

Hús á eftir húsi, á eftir húsi, á eftir húsum. Byggingar og byggingar og moskur og kirkjur. Litlir garðar, stór pálmatré og fallegar svalir. Útskorin munstur á gömlum blokkum. Arabískar áletranir. Gömul auglýsingaskilti. Glæný neonskilti. Ljós. Stjörnur. Tungl á hliðinni. 

Umferðareglur sem skipta engu máli. Umferðamerkingar sem skipta engu máli.

Það er samt ekki kaos. Það er ekkert panikk. Það er einhver regla á allri ringulreiðinni sem ég get ekki hent reiður á. 

Eitthvað óútskýranlegt. Eins og hér sé einhver orka sem smýgur inn í beinin og þú slakar á í óreiðunni.

Mafesh mushkila. Ekkert vandamál. Kullo tamam. Allt í góðu.

Þetta hljómar kannski fjarstæðukennt en í gær þegar sat ég í bíl í heillangan tíma (eins og svo oft í Kaíró) með galopinn glugga og fann heitan vindinn í hárinu upplifði ég einhverja ró.
Hér keyra bílstjórar sem listilega um götur Kaíró og smeygja sér framhjá öðrum bílum, handriðum og tilgangslausum umferðaskiltum af meiri fimi en ég hef séð annars staðar. 

Allt í einu leið mér eins og ég væri ekki hér. Ég væri hvenær sem er: Ég væri tímalaus. Mér varð hugsað til þess fjölda fólks sem hefur gengið um þessar götur síðan fyrr á öldum. Sem hefur stigið fæti á þennan landskika á einn eða á annan hátt. Í sand eða á götu. Alla þá sem keyra þessar götur daglega. Napóleon og Kleópötru. Cæsar og Rómverja. Faraóa og aðra konunga. Evrópska hefðarfólkið og ættbálka úr eyðimörkinni.  

Það var eins og allt stress væri horfið. Óreiðan gleypti stressið mitt og ég starði út í myrkrið  og ljósin og brosti bara. Glotti, öllu heldur. 

Við það eitt að horfa yfir borgina, þó einungis séu hús í augsýn, finnur maður hvernig allt iðar af lífi. Kaíró sefur aldrei. Og það smitar út frá sér. Nóttin er alltaf ung.

Það hættir líka enginn að flauta á fullu þó það sé komin nótt.

Í gær lögðum við bílnum í hálftómt bílastæðahús sem var sennilega byggt til að þjónusta fótboltavöllinn í grenndinni, en hefðum sjálfsagt getað lagt honum næstum hvar sem er. 
Örstutt 5 mínútna labb frá þessu bílastæðahúsi miðsvæðis í Kaíró og þú ert kominn í Khan el Khalili.  Gamla hverfið og markaðurinn.

Fyrir þá sem nenna ekki að lesa wikipedia greinina þá hefur þessi hluti Kaíró meira og minna verið til síðan 970. Ég stóð í dyrunum á byggingu í gær sem var byggð fyrir árið 1000 - en reyndar tekin í gegn á 17.öld, samkvæmt ryðguðum platta á veggnum. 


(getið ýtt á myndirnar fyrir stærri útgáfu)





Innan um þessi fornu hús í gamla hluta Kaíró eru ýmis torg. Þar má meðal annars finna kaffihús sem teygja anga sína úti á torgin eins og sjá má hér að ofan. Þar hefur verið komið fyrir sófum, plaststólum og litlum borðum svo fólk geti notið stjörnubjartrar næturinnar með vatnspípu og myntute við hönd. 

Sennilega eins og hefur verið gert í þessum hluta heimsins og á þessum eldgamla stað í margar aldir. Og þetta gerði ég í gær og gleymdi algjörlega stað og stund. 



Heliopolis í dag. Meira um þetta seinna.

Comments

Popular Posts