Borg sólarinnar

مصر الجديدة Maṣr el-Gedīdah

Best að nota orkuna á meðan hún gefst í þessi skrif. 


Í dag fór ég á allskonar stúss með Yasmine. Við vorum aðallega hérna í hverfinu okkar, sem náttúrulega fyrir lítinn Íslending er frekar eins og stórborg en eitthvað úthverfi. Hverfið ber hið gullfallega nafn Heliopolis - sem á grísku myndi útleggjast borg sólarinnar (Ηλιόπολις).  Uppbygging hófst hér árið 1905 og í byrjun bjó hér urmull af mismunandi fólki af mismunandi uppruna og af allskonar trúarbrögðum. Egyptar, Frakkar, Bretar, Grikkir, múslimar, gyðingar og kristnir og svo framvegis. Það hefur breyst í dag, íbúarnir orðnir aðeins einsleitari en borg sólarinnar ber enn yfirbragð þess að mismunandi menningarheimar höfðu áhrif á uppbyggingu hennar. Belgíski baróninn sem hafði frumkvæðið að því að hér yrði byggt nýtt hverfi sá til þess að hér væru breiðgötur og hús í evrópskum stíl, garðar og ýmsar aðrar nauðsynjar sem höfðu kannski ekki áður talist eðlilegar í Kaíró. 

“Combining the qualities of these types brought Moorish and Persian facades, Arabic spatial volumes, and European floor plans, and Neoclassical and Moorish interiors together in a homogeneous unit.”



Við Yasmine þurftum semsagt að versla, fara í banka, fara á lögreglustöð, fara í arabískuskólann sem ég mun fara í og kíkja í símabúð til að fá símkort fyrir mig.

Fyrsta leigubílinn stoppuðum við hérna fyrir utan - ef þið komið einhvern tímann hingað, takið hvíta leigubíla, þeir eru með mæli. Við byrjuðum á því að fara upp í fyrirtæki og sækja einhverja pappíra, tókum svo leigubílinn í bankann. Í bankanum skipti ég dollurum í pund, starfsmaðurinn sem skoðaði vegabréfið mitt var að sjálfsögðu mjög ringlaður á því. Ég sýndi honum mynd frá Hveravöllum og laug að honum að það væri allt á kafi í snjó á Íslandi. Nei grín, ég var ekkert að ljúga. Það er ennþá snjór heima (er það ekki annars?).

Í bankanum upplifði ég smá menningarsjokk þegar ég sá einn starfsmanninn reykja við skrifborðið. Svo mundi ég að ég væri í Egyptalandi og að hér reyktu allir.

Við tókum alltaf leigubíl á milli staða. Í eitt skiptið spurði ég Yasmine hvort við myndum labba á næsta stað, “nei Miriam, í Egyptalandi löbbum við ekki, khalash”. 

Á lögreglustöðinni upplifði ég mig á heldur undarlegum stað. Þar var leitað í töskunum okkar í garðinum fyrir framan, við innganginn sátu menn á plaststólum með riffla og reyktu sígarettur og hlógu. Fer alltaf um mig þegar ég sé menn með byssur, sérstaklega stórar byssur. Litli Íslendingurinn.. 

 Það er margt og mikið áhugavert sem maður getur séð á götum Kaíró. Sá menn flytja búslóð á pallbíl og sátu þeir ofan á húsgagnahrúgunni sem þar var, í mestu makindum. Hestar

með ávaxtakerrur í eftirdragi eru líka ekki óalgengir, sem og allskonar matarsalar. 

Í eitt skiptið sá ég konu á vespu sem var með hækju og allan vinstri fótinn í spelku frá ökkla og upp að nára. Hún lét það greinilega ekki stoppa sig og sat með fótinn dinglandi utan af vespunni. Svo tók ég eftir því að þegar þú keyrir í gegnum þröngar götur þá ýtirðu ítrekað á flautuna alla götuna til að vara aðra við því að þú sért á leiðinni, svo þeir sem koma úr gagnstæðri átt fari nú ekki að troðast á móti þér.


Mikið er um handapöt og hróp og köll í umferðinni líka. “Fyrirgefðu ég er að reyna að komast þvert í gegnum þessa bílaröð, ertu til í að hleypa mér.” Sameiginlegur skilningur virðist almennt ríkja um að fólk þurfi að komast leiðar sinnar og því eru menn hér almennt ekkert að æsa sig ef einhver í næsta bíl byrjar að flauta og hrópa. 

Comments

Audur said…
Gaman að fylgjast með ferðum þínum í Sólborg, skemmtu þér vel :)

Popular Posts