Fyrsta menningarsjokkið

Af menningarmismun og ferðalögum

Síðustu daga hef ég ferðast þónokkurn slatta, með allskonar farartækjum. Rútur, flugvélar, lestar, bílar. Sem er svo sem ekki í frásögur færandi fyrir utan þær sakir að öll þessi farartæki hafa komið mér á leiðarenda og ég sit núna í stofunni hjá Azza frænku í Kaíró. 

Eftir ferðalagið var þó eitt sem stóð upp úr á leiðinni. Nei, kannski ekki bara eitt, en mér þótti þetta umhugsunarvert. 

Þegar við pabbi mættum loksins í Terminal 1 á Charles de Gaulle þurftum við að finna innritunarborð Egypt Air. Við fundum upplýsingarnar að sjálfsögðu á skjá en vegna einhvers misskilnings þá hélt ég að við ættum að fara í Sal 1 á innritunarborð 20-28. Þegar þangað var komið fundum við engin númer á innritunarborðunum en sáum hins vegar fáránlegt magn af fólki. Röðin fyrir Economy class náði handan við hornið, aftur fyrir básana og allan hringinn og endaði hinu megin. Kannski ekki skrítið fyrir flugfélag 80 milljón manna þjóðar. Reyndar var það sama uppi á teningnum hjá Qatar Airways - svo það kemur kannski ekki fólksfjölda við. 

Þar sem ég hafði misskilið borðanúmerin (sem seinna kom í ljós að gáfu til kynna hvaða hliðum við ættum að fara að), þá löbbuðum við framhjá röðinni og stóðum svo hálf ringluð í allri mannþrönginni. Í röðinni í Business class var bara ein fjölskylda svo pabbi fór og spurði Egypt Air starfsmanninn sem þar var hvert við ættum að fara. “Herra, komdu bara hingað.” Hann ávarpaði pabba með einu af mörgum ávarpsorðum sem til eru í arabísku, yfir þá sem eru eldri eða ofar í virðingastiganum. Ekki fræðilegur möguleiki að þessi fullorðni starfsmaður, sennilega í kringum fimmtugt, léti gamla manninn hann pabba fara aftast í röðina. Þrátt fyrir Economy restricted miðann sem við vorum með. 

Innritunin gekk því eins og í sögu. 

Við biðum sennilega í klukkutíma í röðinni hjá vegabréfaeftirlitinu á flugvellinum í Kaíró, sennilega bara vegna þess að pabbi er of stoltur til að láta fólkið í röðinni fyrir framan sig hleypa sér á undan. Sem næstum allir buðust til að gera. Við komumst út á endanum, ég orðin ógeðsleg af svita, og fundum töskurnar mínar í miðjum farangurssalnum, tiltölulega nálægt hvor annarri - úti á miðju gólfi. Miðað við þá þrjú hundruð manns sem voru um borð í okkar vél auk þeirra 5 véla sem lentu á svipuðum tíma, má ætla að það hafi verið mikið að gera í salnum áður en við komumst í gegn. Og sennilega í langan tíma á eftir. 

En aftur að upphafspunktinum. Þessi menningarmunur sem ég fann fyrir strax á flugvellinum í París snerist hreinlega að því að upplifa virðinguna sem borin var fyrir pabba. Nú er ég alls ekki að segja að við heima berum ekki virðingu fyrir eldra fólki. Ég geri það sjálf og allir sem ég þekki. En, það var einhvern veginn allt annað við þetta andrúmsloft. 

Allt öðruvísi virðing. Virðing sem er kannski sjálfkrafa (eða ekki?) borin öldruðum ættingjum heima, en minna ókunnugu fólki. Virðing sem felst í ávarpsorðum, herra, frú og ýmsir titlar sem fyrr á tímum voru bornir af mönnum í sérstökum stöðum samfélagsins. 

Fyrsta menningarsjokkið var semsagt ánægjulegt. Sem er vel.

Seinna menningarsjokkið. Internet tengingin. Get ekki sagt að ég muni hafa þolinmæði fyrir þessu er á líða stundir! 

Annars þá er ég hérna hress og kát, nývöknuð (en mygluð), í mínu fjarlæga föðurlandi. Í föðurlandi. 

Það er nefnilega nokkuð kalt hérna á nóttinni. 


Yfir og út
-Miriam

Comments

Unknown said…
Alltaf gaman að lesa skrifin þín, frænka ��. Gott að vita að ferðin ykkar ùt hefur gengið vel. Njótið hennar. Bestu kveðjur.

Popular Posts